Knúsum hvort annað

Ég finn fyrir verulegum létti. Ég hef nýlokið við krefjandi samningaviðræður sem ég hafði kviðið fyrir í nokkurn tíma og forðast eins lengi og hægt var. Ég tel mig nokkuð sjóaðan í krefjandi samningaviðræðum, lærði samningatækni í Bandaríkjunum og hef kennt hana um árabil við Háskóla Íslands. Sjálfstraustið var hins vegar ekki mikið fyrir komandi samningaviðræður enda hefur sá aðili sem ég var að fara að semja við alltaf náð sínu fram í samskiptum sínum við mig. Það skiptir engu hvaða trixum í samningatækni ég hef beitt í gegnum tíðina, alltaf virðist þessi tiltekni aðili ná sínu fram.

En núna áttu hlutirnar að breytast. Að þessu sinni ætlaði ég að ná árangri. Ég hafði undirbúið mig vel og hafði samningsmarkmið mín klár. Andlegur undirbúningur minn var afar krefjandi og stóð yfir í nokkra daga. Svo kom að því og stóra stundin skall á. Um var að ræða sjálfar samningaviðræðurnar þar sem ég var að fara að semja við fimm ára dóttur mína, hana Ísabellu Sif. Viðfangsefni mitt var að semja við hana (með því að beita einstökum sannfæringarkrafti) um að nú væri komið að mikilvægum tímapunkti í hennar lífi. Að núna ætti hún að sofa í sínu rúmi alla nóttina og hætta að gleðja foreldra sína með stanslausu næturbrölti sínu. Þetta hefur verið markmið pabba hennar í nokkurn tíma enda sá ég í hillingum að geta sofið heila nótt án þess að eiga á hættu að fá spark hvenær sem er á viðkvæman stað.

Ég fann það strax þegar samningaviðræður okkar hófust að þetta yrði erfitt. Það var í raun strax í upphafi að hún setti mig úr jafnvægi þegar hún bað um knús áður en við byrjuðum viðræðurnar. Eftir að ég náði að hiksta út úr mér ósk minni þá skein alveg í gegn að hún skildi ekkert í þessari einkennilegu bón pabba síns. Stóru bláu augun einfaldlega störðu á mig og svo sagði hún; En pabbi, mér finnst svo gott að koma til þín og mömmu og knúsa ykkur. Mér féllust einfaldlega hendur og kom ekki upp einu orði. Ég var í raun kominn í sama farveginn og áður og var í þann mund að fallast á allar hennar óskir eins og venjulega. Hér kom þó til óvæntur liðstyrkur þar sem móðir hennar greip til sinna ráða og kom fram með frábæra lausn. Setja upp verðlaunaspjald þar sem hún fær límmiða eftir hverja nótt í sínu rúmi og eftir að tíu límmiðar eru komnir þá fær hún verðlaun. Að sjálfsögðu var samið við hana um að verðlaunin yrðu ísbíltúr svo ég fengi að njóta þeirra líka.

En af hverju nær hún Ísabella mín alltaf þessum árangri í samningaviðræðum sínum við mig? Hvaða eiginleika hafa þeir samningsaðilar sem ná árangri? Hér kemur ábyggilega margt til svo sem sannfæringarkraftur og sveigjanleiki. Minn lærdómur eftir þessar krefjandi samningaviðræður við dóttur mína er þó afar einfaldur; Verum einlæg og sýnum hvort öðru vinsemd og virðingu í þeim samningaviðræðum sem við eigum í og jafnvel knúsum hvort annað. Þannig náum við árangri.


Ekki vera svona pirraður

Þetta er setning sem ég fæ stundum að heyra enda kemur þessi pirringspúki stundum upp og bankar all hressilega í öxlina á mér. Þetta er ekki æskilegur gestur en þegar hann kemur þá getur verið erfitt losna við hann. En af hverju kemur pirringurinn upp? Þessi tilfinning að vera pirraður er ekki heillandi. Þá verður þráðurinn stuttur og lítið þarf að koma til svo maður hreyti einhverju illa hugsuðu frá sér. Auðvitað getur margt spilað þarna inn og t.d. getur lítill svefn eða mikið álag ýtt undir að púkinn kíki við. En þær afsakanir eru ekki alltaf til staðar.

Eitt af markmiðum mínum fyrir árið 2016 er að fækka heimsóknum pirringspúkans. Ég ákvað því að velja ákveðnar aðstæður þar sem hann hefur oft kíkt við og plata hann svo hann haldi að ég sé ekki heima. Stundum hefur hann komið við þegar ég fer í ísbúðina mína. Ég hreinlega elska að fá mér ís, sérstaklega gamla mjólkurísinn hjá Ísbúð Vesturbæjar og oft tríta ég mig með súkkulaðidýfu og kókos. Það sem hefur hins vegar pirrað mig er að standa í röðinni algjörlega tilbúinn í ísinn minn þegar svokallaða bragðarefafólkið sem er á undan mér byrjar. Þetta skrítna bragðarefafólk virðist skorta allt tímaskyn og valkvíði hrjáir það oft á háu stigi. Pirringspúkinn hreinlega elskar þetta hins vegar og er hávær á öxlinni á mér. Hann býr til fýlusvip í andlitinu á mér og ýtir undir neikvæðar hugsanir.

Þú ert ekki velkominn pirringspúki hugsaði ég með mér þegar ég var nýlega staddur í biðröðinni í ísbúðinni og á undan mér var bragðarefafólk og við erum að tala um að fjögur stykki af bragðaref voru framundan. Í stað þess að fara í gamla horfið með tilheyrandi neikvæðni og pirring þá ákvað ég að taka nýjan pól í hæðina og vera jákvæður og pirringslaus. Ég bjó því til smá leik og fór að giska á hvað bragðarefafólkið myndi fá sér í sinn bragðaref, væri það t.d. jarðaber, þristur eða snickers sem yrði fyrir valinu?

Að stýra viðhorfi sínu er mikilvægt. Að sjá aðstæður sem áskoranir og tækifæri í stað þess að upplifa þær sem vandamál og erfiðleika. Að nálgast viðfangsefni með jákvæðum hætti þannig að það sé einfaldlega verkefni sem þarf að leysa úr í stað þess að fyllast neikvæðni og jafnvel pirringi. Mér tókst það með bragaðarefafólkið og er bara nokkuð stoltur af því. Næst er það pylsufólkið sem einhverra hluta vegna er alltaf á undan mér í röðinni á bensínstöðinni.


Á ég að láta það eftir mér?

Þetta getur verið erfið spurning sem ég velti ansi oft fyrir mér, sérstaklega þegar útsölurnar byrja. Það hljóta allir að sjá mikilvægi þess að fá sér nýjar skyrtur og jafnvel jakkföt þegar herlegheitin hefjast. Allavega geri ég það. Þar sem ég er ábyrgur fjármálaþenkjandi einstaklingur er ég ávallt að leitast við að nýta peninga mína með sem bestu hætti og ákvað því í upphafi janúar að fjárfesta í nýjum jakkafötum hjá honum Pétri í Boss búðinni. Þar sem einhverjar líkur eru á því að konan mín fái vitneskju um þennan pistil þá ætla ég ekkert að vera að upplýsa um hve mikið fötin kostuðu. En hvernig tengist þetta fórnarkostnaði? Með þessari ákvörðun, sem var vissulega hárrrétt, fór hluti af mínum peningum til Péturs en á móti fékk ég jakkafötin. Jú, með því að nota peningana mína í fallegu bláu jakkafötin þá nýtti ég þá ekki til einhvers annars, svo sem að greiða inn á lán.

Allar ákvarðanir okkar fela það nefnilega í sér að við erum að velja einn kost en á móti að hafna einhverjum öðrum. Við erum því að fórna einum valkosti með því að velja annan. Ég og konan mínerum þessa dagana mikið að velta því fyrir okkur hvort við eigum að selja annan bílinn okkar. Mikil rökræða hefur átt sér stað og við erum alls ekki sammála. Eigum við að vera á einum bíl í stað tveggja? Allt þetta snýst um hvort við erum tilbúin að fórna þeim gæðum sem felast í því að geta verið á tveimur bílum en á móti sparað okkur nokkrar (jafnvel þónokkkrar) krónur. Okkar fórnarkostnaður í þessu tilviki eru peningar en á móti fáum við meiri sveigjanleika og gæði að einhverju leyti. Að sjálfsögðu væri hægt að segja að það væru aukin gæði að vera á einum bíl þar sem fjölskyldan væri meira saman en það er bara í einhverjum ævintýrum sem gerast á Sauðárkróki.

En hversu mikils virði er þessi viðbótarbifreið? Erum við hjónin frekar tilbúin að leggja til hliðar þá fjármuni sem fara í að reka þá bifreið (sem samkvæmt heimasíðu FÍB er aldrei undir einni millj. kr. á ári) og fara erlendis næsta sumar? Í þessu yndislega veðri í janúar hér á Íslandi þá hljómar það hreint ekkert illa að flatmaga í tvær vikur á ströndinni á Spáni eftir hálft ár. Hér skiptir líka máli að við erum sem betur fer ekki öll eins og metum gæði hluta með ólíkum hætti. Fyrir suma er nauðsynlegt að komast reglulega í frí til heitra landa og eru þeir þá tilbúnir að fórna ýmsu, svo sem bifreið, til þess að komast yfir slík gæði. Á meðan telja aðrir það ekki vera þess virði og vilja frekar leyfa sér að fara oft (kannski of oft) út að borða, kaupa sér nýjustu týpuna af 55 tommu flatskjá frá Samsung og ekki síst dressa sig upp reglulega í nýjum Boss fötum.

Kannski má þó fara einhvern milliveg og ekki fórna algjörlega sumarfríinu á Spáni heldur fara í eina viku í stað tveggja og kannski velja ódýrara hótel. Í staðinn væri hægt að horfa til þess að fara ekki í dýrustu týpuna af Samsung tækinu, nýta sér tveir fyrir einn tilboð á veitingastöðum og ekki síst (sem verður þó erfiðast) að fá sér ekki ný jakkföt á hverju ári hjá Pétri.


Um bloggið

Elmar Hallgríms Hallgrímsson

Höfundur

Elmar Hallgríms Hallgrímsson
Elmar Hallgríms Hallgrímsson

Elmar Hallgríms Hallgrímsson, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ, lögfræðingur og Dale Carnegie þjálfari.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband