Knúsum hvort annað

Ég finn fyrir verulegum létti. Ég hef nýlokið við krefjandi samningaviðræður sem ég hafði kviðið fyrir í nokkurn tíma og forðast eins lengi og hægt var. Ég tel mig nokkuð sjóaðan í krefjandi samningaviðræðum, lærði samningatækni í Bandaríkjunum og hef kennt hana um árabil við Háskóla Íslands. Sjálfstraustið var hins vegar ekki mikið fyrir komandi samningaviðræður enda hefur sá aðili sem ég var að fara að semja við alltaf náð sínu fram í samskiptum sínum við mig. Það skiptir engu hvaða trixum í samningatækni ég hef beitt í gegnum tíðina, alltaf virðist þessi tiltekni aðili ná sínu fram.

En núna áttu hlutirnar að breytast. Að þessu sinni ætlaði ég að ná árangri. Ég hafði undirbúið mig vel og hafði samningsmarkmið mín klár. Andlegur undirbúningur minn var afar krefjandi og stóð yfir í nokkra daga. Svo kom að því og stóra stundin skall á. Um var að ræða sjálfar samningaviðræðurnar þar sem ég var að fara að semja við fimm ára dóttur mína, hana Ísabellu Sif. Viðfangsefni mitt var að semja við hana (með því að beita einstökum sannfæringarkrafti) um að nú væri komið að mikilvægum tímapunkti í hennar lífi. Að núna ætti hún að sofa í sínu rúmi alla nóttina og hætta að gleðja foreldra sína með stanslausu næturbrölti sínu. Þetta hefur verið markmið pabba hennar í nokkurn tíma enda sá ég í hillingum að geta sofið heila nótt án þess að eiga á hættu að fá spark hvenær sem er á viðkvæman stað.

Ég fann það strax þegar samningaviðræður okkar hófust að þetta yrði erfitt. Það var í raun strax í upphafi að hún setti mig úr jafnvægi þegar hún bað um knús áður en við byrjuðum viðræðurnar. Eftir að ég náði að hiksta út úr mér ósk minni þá skein alveg í gegn að hún skildi ekkert í þessari einkennilegu bón pabba síns. Stóru bláu augun einfaldlega störðu á mig og svo sagði hún; En pabbi, mér finnst svo gott að koma til þín og mömmu og knúsa ykkur. Mér féllust einfaldlega hendur og kom ekki upp einu orði. Ég var í raun kominn í sama farveginn og áður og var í þann mund að fallast á allar hennar óskir eins og venjulega. Hér kom þó til óvæntur liðstyrkur þar sem móðir hennar greip til sinna ráða og kom fram með frábæra lausn. Setja upp verðlaunaspjald þar sem hún fær límmiða eftir hverja nótt í sínu rúmi og eftir að tíu límmiðar eru komnir þá fær hún verðlaun. Að sjálfsögðu var samið við hana um að verðlaunin yrðu ísbíltúr svo ég fengi að njóta þeirra líka.

En af hverju nær hún Ísabella mín alltaf þessum árangri í samningaviðræðum sínum við mig? Hvaða eiginleika hafa þeir samningsaðilar sem ná árangri? Hér kemur ábyggilega margt til svo sem sannfæringarkraftur og sveigjanleiki. Minn lærdómur eftir þessar krefjandi samningaviðræður við dóttur mína er þó afar einfaldur; Verum einlæg og sýnum hvort öðru vinsemd og virðingu í þeim samningaviðræðum sem við eigum í og jafnvel knúsum hvort annað. Þannig náum við árangri.


« Síðasta færsla

Um bloggið

Elmar Hallgríms Hallgrímsson

Höfundur

Elmar Hallgríms Hallgrímsson
Elmar Hallgríms Hallgrímsson

Elmar Hallgríms Hallgrímsson, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ, lögfræðingur og Dale Carnegie þjálfari.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband